Reglubók

Reglubók Golfklúbbs Reykjavíkur

Það er von stjórnar GR að bók þessi komi að góðu gagni og að félagsmenn kynni sér reglur og lög klúbbsins rækilega og fari eftir þeim í hvívetna.  Í fjölmennum klúbbi eins og GR er afar þýðingarmikið að allir félagsmenn þekki og virði reglur svo að samskipti félagsmanna á völlum klúbbsins megi verða eins ánægjuleg og kostur er.
Heimasíða Golfklúbbs Reykjavíkur er aðalfréttamiðill klúbbsins og er þar að finna upplýsingar um stjórn, starfsmenn og starfsemi klúbbsins auk laga klúbbsins og reglna. Slóðin á heimasíðu GR er www.grgolf.is og netfangið er gr@grgolf.is .

1. Heimild til leiks á völlum GR.

1.1 Heimild til að leika á völlum GR hafa félagar í klúbbnum og þeir sem hafa greitt vallargjald. Leikmaður skal hafa EGA *grunnforgjöf  eða sambærilega staðfesta forgjöf og  ber að framvísa forgjafarskírteini því til sönnunar.
1.2 Þeir félagar í GR sem ekki hafa forgjöf hafa rétt til að leika á Litla velli Korpúlfsstaða og skulu að jafnaði leika þar. Þeim er þó heimilt að leika á aðalvöllum klúbbsins utan annatíma að höfðu samráði við ræsi.
1.3 Allir leikmenn skulu skrá sig í rástíma áður en þeir hefja leik. 

2.   Forgjöf.
2.1 Leikmaður sem hefur forgjöf skal skila inn a.m.k. fjórum gildum skorum á almanaksárinu af viðurkenndum golfvöllum. Leikmaður sem gerir það ekki missir EGA grunnforgjöf og hefur þá ekki heimild til að skrá sig í keppni þar sem EGA grunnforgjafar er krafist.
2.2 Leikmenn með EGA grunnforgjöf  í forgjafarflokkum 2 til 5 (forgj. 4,5 og hærri) mega nota skor æfingahrings til útreiknings á forgjöf og verða eftirtalin atriði að koma fram á skorkorti:
a. dagsetningu þegar umferðin er leikin
b. nafn leikmannsins og kennitölu eða félagsnúmer
c. skor (högg og áunna punkta)
d. undirskrift ritara ásamt kennitölu hans
e. undirskrift leikmannsins
f. EGA grunnforgjöf leikmannsins
g. EGA leikforgjöf leikmannsins
 
 Leikmanni er heimilt, og er hann jafnframt hvattur til, að skrá skor sitt inn á vefsíðu Golfsambands Íslands (www.golf.is) og ber honum þá að varðveita skorkort sitt í eitt almanaksár því til sönnunar. Kjósi leikmaður að færa ekki skor sitt sjálfur inn á vefsíðuna getur hann skilað skorkortum til útreiknings á forgjöf á skrifstofu GR eða í þar til gerða kassa í klúbbhúsum félagsins. Starfsfólk klúbbsins skráir inn skor samkvæmt kortunum.  Skor í mótum eru skráð af starfsmönnum klúbbsins.
2.3 Viðurkenna skal 9 holu leik sem gilda umferð til útreiknings á forgjöf í forgjafarflokki 5 (forgj. 26,5 og hærri) og til að öðlast forgjöf í fyrsta sinn. Í slíkum tilfellum skal bæta 18 Stableford punktum við árangur 9 holu leiks.
2.4 Til að fá EGA grunnforgjöf skal leikmaður skila a.m.k. þremur Stableford *skorum til klúbbsins. Leikmaður verður að leika umferðirnar við forgjafarskilyrði á viðurkenndum golfvelli. Sérhvert skor skal undirritað af ritara og staðfest af leikmanni. Að lágmarki verður eitt skorið að samsvara EGA grunnforgjöf 36 (karlar)/40 (konur), þ.e. 36 Stableford punktar eða fleiri og skal besta skorið notað til að reikna út fyrstu EGA grunnforgjöfina. Viðurkenna skal 9 holu leik sem gilda umferð í þessu sambandi.
2.5 Hámark EGA grunnforgjafar skal vera 36 fyrir karla og 40 fyrir konur.
2.6 Hámarkshækkun EGA grunnforgjafar skal vera 2,0 umfram lægstu EGA grunnforgjöf viðkomandi á almanaksárinu.
2.7 Leikmaður ber ávallt ábyrgð á forgjöf  sinni og skal ganga úr skugga um að hún sé ætíð rétt skráð.

3. Rástímar.

3.1. Reglur um skráningu í rástíma og forbókanir hópa.
3.1.2  Þriggja daga bókunarfyrirvari er vegna rástíma sem eru fyrri hluta dags   þ.e.a.s. frá  kl.7:00 til kl.14:50. Tveggja daga bókunarfyrirvari er vegna rástíma sem eru seinni hluta dagsins þ.e.a.s. frá kl.15:00 til kl.21:00
Eftirfarandi reglur gilda um forbókanir hópa;
Stærð hópa, ekki færri en 8  og ekki fleiri en 20 manns í hverjum hóp.
Einungis verði félagsbundnir GR - ingar í hópum, þó verða  GR-gestakort/vallarkort gild til forbókunar hópa.
Bókað verður einungis á fjóra daga vikunnar; mánudag til fimmtudags.
Hver hópur fær bókaðan tíma fjórum sinnum í mánuði  þ.e.a.s. hver hópur fær bókaðan rástíma einu sinni í viku á einum af þessum fjórum völlum; Grafarholt, Korpa, Akranes og Grindavík.
Gengið er útfrá því að hópar bóki sig ekki á Grafarholts-og Korpuvöll utan forbókunar.
Bókun á sér stað frá kl.08:00 til 14:50 þ.e.a.s. síðasti bókaði tími er kl.14:50.
Gengið verður frá forbókun hópa fyrir 11. apríl.
Breytingar  á skráningu rástíma eru samkvæmt reglu 3.1.5.
Ábyrgðarmaður (tengill) skal tilnefndur fyrir hvern hóp og tryggir hann að reglur séu haldnar t.d. að rástímar verði fullnýttir, sjá reglu 3.1.5.
3.1.3 Eingöngu félagsmenn í GR geta bókað rástíma á Netinu.
3.1.4 Við skráningu í rástíma skal sá sem skráir sig gefa upp, kennitölu. Óski viðkomandi eftir að skrá fleiri skal hann gefa upp kennitölu þeirra. Vakin er athygli á að eingöngu skal skrá í rástíma samkvæmt kennitölu.
3.1.5 Afbókunarfyrirvari kemur fram á golf.is við rástímaskráningu. Athygli er vakin á að hægt er að afskrá sig rafrænt af rástíma á golf.is. Mæti einhver úr rástíma ekki, án þess að boða forföll, missir viðkomandi rétt til bókunar í rástíma á golf.is. Ítrekað brot skal tilkynnt aganefnd. Sé um leikmann að ræða sem ekki er félagi í GR skal hann ekki fá skráðan rástíma framvegis. Hafi viðkomandi verið skráður án sinnar vitundar skal sá sem skráði í rástímann bera ábyrgðina.
3.1.6 Sé ráshópur ekki fullskipaður hefur ræsir rétt á að bæta í hópinn.
3.1.7 Leikmaður skal mæta að lámarki 10 mínútum áður en hann hefur leik.

4. Leikhraði.

Mikið álag er á völlum GR og því er algjört grundvallaratriði að leikhraði sé í lagi. Það er því mjög mikilvægt að allir leikmenn fari eftir þeim viðmiðunum sem klúbburinn setur um leikhraða.
4.1 Stefnt skal að því að fjórir leikmenn í ráshópi séu ekki lengur en fjóra klukkutíma og tuttugu mínútur að leika 18 holu hring.
4.2 Til þess að halda uppi leikhraða skulu leikmenn stilla æfingasveiflum í hóf, ganga rösklega milli þess er þeir slá bolta sinn, yfirgefa flötina um leið og leik er lokið og ganga strax að næsta teig. Leikmenn skulu ávallt vera meðvitaðir um þá sem á eftir koma.
4.3 Leikmenn skulu gæta þess að hleypa fram úr strax og ástæða er til svo sem vegna leitar að týndum bolta og/eða ráshópurinn hefur dregist afturúr næsta hópi á undan.
4.4 Leikmenn ættu við þær aðstæður sem golfreglurnar leyfa að leika varabolta til þess að flýta leik.
4.5 Leikmenn í forgjafarflokki 5 (forgj. 26,5 og hærri) skulu leika af framteigum (bláum eða rauðum).
4.6 Mælst er til þess að leikmenn noti Stableford-punktakerfi við æfingahringi og taki boltann upp þegar útséð er um að punktur fáist á viðkomandi holu.

5. Umgengni um velli GR.

5.1 Gengið skal vel um velli GR. Kylfingar eru hvattir til þess að skilja aldrei rusl eftir sig á vellinum heldur nota ruslafötur,  setja torfusnepla í för og laga boltaför á flötum. Þeim félagsmönnum sem reykja er bent á að henda ekki frá sér sígarettustubbum heldur nota ruslafötur eða þar til gerð ílát.
5.2 Notkun farsíma er bönnuð á völlunum. Hægt er að fá undanþágu í einstök skipti hjá ræsi.
5.3 Ekki skal fara með golfpoka eða kerrur inn á flatir eða teiga. Óheimilt er að fara með golfkerrur á milli flatarglompu og flatar. Leikmenn skulu virða þau takmörk sem starfsmenn setja varðandi umferð og leitast við að hlífa álagsblettum á vellinum.

6. Umgengni í klúbbhúsum GR.

6.1 Gengið skal vel um klúbbhúsin, t.d. skal ekki gengið inn á gaddaskóm, skítugum skóm eða blautum regngöllum.
6.2 Kylfingar eru hvattir til þess að nota búningsherbergi til fataskipta og forðast að skilja eftir fatnað, skó eða annan búnað í klúbbhúsunum utan búningsherbergis.
6.3 Óheimilt er að fara með golfsett inn í klúbbhús, nema á æfingasvæði.
6.4 Reykingar eru bannaðar í klúbbhúsum GR.

7. Umgengni á æfingasvæðum GR.

7.1  Á æfingasvæðum, þ.m.t. í Básum, gilda allar sömu umgengnisreglur og á völlum og í klúbbhúsum GR. Kylfingar skulu sérstaklega gæta þess að trufla ekki aðra við æfingar.
8. Klæðaburður.
8.1 Mælst er til þess að kylfingar klæðist snyrtilegum golfklæðnaði. Gallabuxur teljast ekki golfklæðnaður.

9.  Skráning og mætingar í mót.

9.1 Mótshaldara er heimilt að krefjast greiðslu þátttökugjalda við skráningu. Keppandi á ekki rétt á endurgreiðslu þátttökugjalds boði hann forföll til mótsstjórnar/nefndarinnar, síðar en kl. 18.00 daginn fyrir fyrsta keppnisdag.  

10. Ræsir og eftirlitsmenn

10.1 Eftirlit með leik, leikhraða og umgengni á völlunum er í höndum ræsis og eftirlitsmanna.
10.2  Kylfingum ber að framvísa félagsskírteini eða kvittun fyrir greiðslu  vallargjalds sé þess  óskað. Kylfingur, sem hefur leik á vellinum án þess að hafa til þess heimild, telst hafa skuldbundið sig til greiðslu vallargjalds með 50% álagi.
10.3  Þeim sem leika velli GR er skylt að hlíta fyrirmælum ræsis eða eftirlitsmanns.
Verði félagsmaður uppvís að alvarlegu broti á reglum þessum ber starfsmönnum að tilkynna það til aganefndar GR. Aganefnd getur veitt félagsmanni  áminningu eða beitt tímabundinni útilokun frá leik á völlum klúbbsins. 
Reglur um mótahald á völlum Golfklúbbs Reykjavíkur.
Það er meginmarkmiðið með rekstri golfvallanna að þeir séu opnir félagsmönnum GR til golfleiks. Í samræmi við þetta markmið hefur stjórn GR sett eftirfarandi reglur um mótahald á völlunum:
1. Þess skal gætt að ekki séu mót á öllum18 holu völlum GR á sama tíma. Undantekningar eru meistaramót klúbbsins og bændaglíman.
2. Í „fyrirtækjamótum” og öðrum slíkum mótum sem ekki eru á vegum klúbbsins eða í umsjón starfsmanna hans skal síðasti rástími ekki vera eftir kl. 13.00. Slík mót skal ekki halda á almennum frídögum.
3. Mót þar sem ræst er út af öllum teigum samtímis, skal einungis halda að morgni dags, þannig að þess sé alltaf gætt að mótshaldið trufli sem minnst eðlilega nýtingu vallarins.
Frávik frá þessum reglum um mót eru einungis heimil að fengnu samþykki stjórnar GR eða kappleikjanefndar.
Reglur um aðgang að GR.

Auk heiðurs- og ævifélaga skal taka allt að 2.750 manns á félagaskrá hvers árs. Á skrána skal taka:
1.     Félagsmenn, sem greiddu árgjald næstliðið ár, sem standa í skilum með greiðslu árgjalds skv. reglum klúbbsins.
2.     Þann 1. maí ár hvert skal hleypa að nýjum félögum af biðskrá eftir númeraröð þar til tölunni 2.750 er náð. Af biðskránni skal þó fyrst veita inngöngu mökum klúbbfélaga.
3.     Á biðskrá skal taka umsækjendur um aðild að klúbbnum eftir tímaröð umsókna. Umsókn skal fá númer við móttöku. Þiggi umsækjandi ekki boð um félagsaðild, þegar að honum kemur, fellur hann af biðskránni.
4.     Stjórn GR er heimilt að taka við nýjum félagsmönnum utan biðskrár ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
5.     Ungmenni 17 ára eða yngri eru aukaaðilar að klúbbnum gegn greiðslu árgjalds. Aukaaðili fær rétt til þess að leika Litla völlinn á Korpu án sérstakrar takmörkunar og 18 holu velli klúbbsins á virkum dögum með rástíma fyrir kl. 13.00 og eftir kl. 13:00 um helgar að uppfylltum forgjafarskilyrðum.
 
Vinavellir GR
Golfklúbbur Reykjavíkur hefur samið við Golfklúbb Hellu, Golfklúbbinn Leynir og Golfklúbb Þorlákshafnar um afnot félagsmanna GR af völlum þeirra. Samkvæmt þeim samningum hafa félagsmenn í GR  rétt til að leika Strandavöll gegn 1,000 kr. greiðslu, Þorláksvöll og Garðavöll gegn 1,500 kr. greiðslu. Að öðru leyti er um að ræða sömu skilmálar og félagsmenn hafa í viðkomandi klúbbum.  Þegar félagsmenn í GR leika á þessum völlum, er þeim skylt að framvísa félagsskírteini. Sé félagsskírteini ekki haft meðferðis eða því ekki framvísað, skal viðkomandi rukkaður um fullt vallargjald.


Styrktaraðilar GR