Bréf frá formanni


16.11.2015
Þá er líklega hægt að fullyrða að golftímabilinu 2015 sé lokið, Grafarholtinu hefur verið lokað en Korpan mun hugsanlega opna eitthvað meira ef veður leyfir. Tímabilið teygði sig óvenju langt inn í haustið og fyrir það erum við kylfingar þakklát. Fyrstu helgina í nóvember var haldið mót á Korpunni og hefur það ekki gerst oft hjá okkur, þó ekki sé það einsdæmi. Hátt 100 kylfingar tóku þátt, Korpan var í ágætu formi þrátt fyrir miklar rigningar undanfarið og veðrið með skaplegasta móti. Það var ljóst að nokkrir kylfingar höfðu haldið sér í góðu formi, því mjög lág skor sáust í mótinu.

Nú styttist í aðalfund klúbbsins en hann verður haldinn í byrjun desember. Það hefur verið fjörugt starf hjá stjórninni á árinu og líklegt að nokkrar áhugaverðar tillögur líti dagsins ljós á aðalfundinum. Þar má helst nefna:

1.    Lokatillögur Tom McKenzie á breytingum í Grafarholti lagðar fram til samþykktar
2.    Hugmyndir og hugsanlega tillögur að nýrri uppsetningu árgjalda til að styðja við og efla þátttöku yngri kylfinga
3.    Lagabreytingar þar sem lög klúbbsins verða uppfærð, sérstaklega með tilliti til kosningu fulltrúa félagsins

Ég vil hvetja GR-inga að fjölmenna á fundinn og taka þátt í starfinu með okkur og aðstoða þannig við að móta stefnu félagsins til framtíðar. Nákvæm tímasetning og dagskrá fundarins verður auglýst nú á næstunni.

Í vetur verður unnið að ýmsum lagfæringum á völlunum okkar. Vallastarfsmenn hafa verið uppteknir undanfarnar vikur að yfirfara og uppfæra vökvunarkerfin á báðum völlunum, trjásnyrtingar munu halda áfram og ýmis önnur verk sem skila ættu völlunum okkar enn glæsilegri til leiks á nýju golfsumri.

Nú um liðna helgi auglýsti félagið eftir nýjum framkvæmdastjóra, Garðar Eyland mun ljúka störfum eftir afar farsælan stjórnarferil nú að loknum aðalfundinum. Ég vil hvetja alla áhugasama til að sækja um starfið, en nánari upplýsingar um ferlið má sjá á heimasíðu klúbbsins www.grgolf.is.

Uppskeruhátíð Golfsambands Íslands fór fram nýlega þar sem veitt voru verðlaun fyrir árangur sumarsins á mótaröðum GSÍ. Ingvar Andri Magnússon og Saga Traustadóttir, úr GR, voru valinn efnilegustu kylfingarnir. Haraldur Franklín Magnús úr GR fékk Júlíusarbikarinn sem veittur er fyrir lægsta meðalskorið á Eimskipsmótaröðinni. Glæsilegur árangur hjá okkar fólki og eru þau, ásamt afreksfólkinu okkar öllu, klúbbnum til mikils sóma.

Í vetur verður svo, að venju, fjölbreytt félagsstarf. Þar ber hæst púttmótaraðirnar sem hefjast eftir áramótin. Básar eru svo að sjálfsögðu opnir í allan vetur þar sem kylfingar geta stillt af sveifluna fyrir næsta golfsumar. Nýtið tímann í vetur vel og komum vel æfð út á vellina í vor.

Með GR kveðju,
Björn Víglundsson formaður Golfklúbbs Reykjavíkur

0 hafa sagt sína skoðun

Segðu þína skoðun

Fyrst um sinn getur aðeins ritstjóri spjallsins stofnað til nýrrar umræðu í kerfinu. Félagsmenn, sem vilja koma af stað umræðu um tiltekið málefni, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við ritstjórann á netfanginu omar@grgolf.is.

Styrktaraðilar GR