Færslur á brautum og flötum

Færslur á brautum og flötum

Kæru GR-ingar,

Yfirdómari ætlar að fjalla hér um færslur á brautum og flötum. Í golfreglunum kallast þetta „Bætt lega“, en flestir kylfingar þekkja þetta sem færslur á brautum og/eða flötum.  Það liggur alveg ljóst fyrir að allir eru ekki sammála, en við þurfum að framfylgja reglunum eins mikið og vel og hægt er, ef einhver er með athugasemdir eru best að senda þær á domari@grgolf.is

Í golfreglu 1.1 segir orðrétt:

Í hverju höggi leikur leikmaðurinn:

  • Völlinn eins og hann kemur að honum, og
  • Boltanum eins og hann liggur.

Þetta merkir að skv. golfreglunum eru engar færslur leyfðar, hinsvegar eru til svokallaðar vetrarreglur (bætt lega) þar sem heimilt er að setja í staðarreglur að færslur eru leyfðar fyrir ákveðið tímabil og ákveðin svæði á vellinum.

Í skjali sem heitir „Opinberar leiðbeiningar 2019“ og gefið er út af R&A segir orðrétt í kafla 8E-3:

Tilgangur. Þegar tilfallandi staðbundnar óeðlilegar aðstæður kunna að trufla leik á ósanngjarnan hátt er hægt að skilgreina aðstæðurnar sem grund í aðgerð. Óhagstæðar aðstæður, svo sem mikill snjór, þýða að vori, langvarandi rigningar eða mikill hiti geta stundum skemmt völlinn eða valdið því að ekki sé hægt að nota þung sláttutæki.

Þegar slíkar aðstæður eru útbreiddar á vellinum getur nefndin kosið að setja staðarreglu fyrir „bætta legu“ (einnig þekkt sem „vetrarreglur“) til að gera leik sanngjarnari eða hlífa brautinni. Slíkar staðarreglur ætti að taka úr notkun eins fljótt og aðstæður leyfa.

Þetta segir manni ýmislegt og gefur yfirdómara í samráði við vallarstarfsmenn, ýmsa möguleika.  Í fyrsta lagi þá segir „Slíkar staðarreglur ætti að taka úr notkun eins fljótt og aðstæður leyfa“. Þá er það aðeins spurning hvenær aðstæður eru það góðar að óhætt er að taka þær úr notkun.  Tímabilið okkar er stutt eða um 4 - 4,5 mánuðir og því væri um 25% af tímabilinu mjög hentugur og sanngjarn tími til að heimila slíkar færslur.

Hvað varðar Grafarholtið þá eru flestar brautir þar mjög ósléttar og mikið af djúpum holum þar sem erfitt getur verið að slá grasið, ásamt því að það er mjög ósanngjarnt að eiga fullkomið högg á miðri braut og vera svo algjörlega ósláanlegur í djúpri ósleginni holu. Það eru því allir sammála á meðan Grafarholtið er eins og það er að þá verður að leyfa færslur á því allt sumarið. Vonandi breytist það sem allra fyrst.

Hvað varðar Korpuna þá eru brautir þar mun betri og því er hægt að taka færslurnar af þar, og eins og segir í reglunum þá verður að gera það eins fljótt og hægt er.  15. júní hefur verið miðað við, þá er völlurinn búinn að vera opinn í ca. 4-6 vikur og ætti að vera orðinn sæmilega gróinn.  Það er enginn að segja að kylfingar hafi rétt á fullkomnum brautum enda segir í reglu 1.1 að spila völlinn eins og hann kemur fyrir.  Auðvitað eru einhver svæði á brautunum sem eru þess eðlis að ósanngjarnt er að slá þar, en samt engin svæði þar sem boltinn er ósláanlegur, hinsvegar þá er völlurinn eins og hann er og því mikilvægt að spila hann eins og hann kemur fyrir.  Þegar menn eru í mótum og telja sig liggja á mjög ósanngjörnum stað er hægt að hringja í dómara sem mætir þá á staðinn og metur aðstæður og hefur þá heimild til að merkja viðkomandi svæði blátt og gefa þá heimild til að fá lausn úr svæðinu, þó í miðju móti sé.

Kylfingar verða að gera ráð fyrir að færslur á Korpunni séu leyfðar til 15. júní og svo aftur eftir 15. september.

Hvað flatirnar varðar þá er það alltaf spurning hvenær þær eru tilbúnir til að vera færslulausar, en við höfum miðað við 15. júní til 15. september og stefnum á að halda því áfram.  Það kemur fyrir að vallarstarfsmenn eru að vinna við flatirnar og geta þær þá orðið frekar óslétta við það, í mótum er það metið hverju sinni hvort leyfa eigi færslur við svoleiðis aðstæður.

Þrátt fyrir að færslur séu leyfðar þá gildir hringur samt sem áður til forgjafar.

Kylfingar verða að kynna sér staðarreglur þar sem þeir spila til að athuga hvort færslur séu leyfðar á viðkomandi velli.

Það að leyfa færslur hægir aðeins á leik, og hvet ég því kylfinga til að athafna sig hratt og vel og sjá til þess að tefja ekki leik þrátt fyrir að eyða smá tíma í færslurnar. Ég hvet kylfinga til að nýta sér færslur aðeins þegar það er nauðsynlegt.

Með kveðju,
Yfirdómarinn
domari@grgolf.is

Til baka í yfirlit