Fréttabréf frá stjórn – viðhorfskönnun og rástímar

Í desember sl. skipaði stjórn nefnd til að fjalla um aðgengi að völlunum okkar, rástímamál, félagatal og félagsgjöld, en þessi atriði haldast öll í hendur. Í viðhorfskönnuninni voru spurningar um þessi atriði. Nefndin rýndi m.a. í upplýsingar úr golfbox um rástímaskráningar, tölfræði og  upplýsingar frá öðrum klúbbum á höfuðborgarsvæðinu. Hún skilaði svo tillögum, sem stjórnin vann síðan úr í samráði við nefndina og niðurstöður viðhorfskönnunarinnar.

Niðurstöður viðhorfskönnnarinnar voru afgerandi um að aðgengi að völlunum – erfiðleikar við að fá rástíma – er það helsta, sem félagsmenn eru ósáttir við. Eftir mikla yfirlegu hefur stjórn ákveðið eftirfarandi aðgerðir, sem verður hrint í framkvæmd við strax við sumaropnun:

  1. Rástímaskráningar: Opnað verður fyrir skráningu rástíma kl. 20:00 á kvöldin í stað kl. 22:00. Þá verður skráningartímabil lengt úr fjórum dögum í átta. Fyrrnefnda breytingin er í samræmi við óskir fjölmargra félagsmanna. Seinni breytingunni er ætlað að gefa félagsmönnum kost á að skipuleggja tíma sinn lengra fram í tímann.
  2. Forskráningum hópa verður hætt: Ákveðið hefur verið að hætta forskráningum hópa, sem boðið hefur verið upp á undanfarin ár. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Þær helstu eru að það hefur sætt gremju félagsmanna að þeir sem eru í hópum hafi í reynd forgang umfram aðra, jafnframt því sem þessum hópum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Reynt hafði verið að mæta þessu með því að leggja fyrir hópana að byrja fyrr á daginn, en nú er svo komið að ásókn er mikil í þá rástíma einnig. Stjórn er ljóst að mikill og góður félagsskapur er tengdur hópunum og að þessari ákvörðun fylgir sársauki. Að öllu virtu, þ.m.t. niðurstöðum viðhorfskönnunar, var niðurstaða stjórnarinnar að sterkari rök væru gegn hópaskráningum heldur en með og því ákveðið að hætta þeim að svo komnu.
  3. 8 mínútur milli rástíma: Ræst verður út á völlum GR með 8 mínútna millibili í stað 8-9 mínútna til skiptis. Klúbburinn hefur síðastliðin tvö ár fikrað sig áfram með að stytta bil milli rástíma með góðum árangri. Er ákvörðunin tekin í því ljósi, jafnframt því sem áhersla á leikrhaða verður aukin.
  4. Leikhraði: Lögð verður aukin áhersla á leikhraða og eftirlit. Svokallaðar covid-reglur hafa haft góð áhrif á leikhraða og er mælst til þess að félagsmenn haldi sig við þær, að því frátöldu að sandglompur verði í leik samkvæmt golfreglum. Tilmæli verða til félagsmanna um að þeir spili af teigum sem hæfa þeirra forgjöf og getu. Það gerir leikinn fyrir viðkomandi einfaldlega miklu skemmtilegri, auk þess sem þau augljóslega tefur leik þegar kylfingar leika af teigum sem þeir ráða illa við. Dragist ráshópur aftur úr næsta ráshópi á undan þannig að það tefji leik þeirra sem á eftir koma (auð braut á milli holla er viðmiðun) skulu eftirlitsmenn brýna fyrir viðkomandi að flýta leik og ná næsta ráshópi á undan. Takist það ekki skal lagt fyrir viðkomandi að færa sig yfir á fremri teiga þar til markmiðinu er náð.
  5. Reglur um afskráningar hertar: Fyrirvari til afskráninga er lengdur úr einni klukkustund í tvær. Þá skulu afskráningar fara fram í gegnum Golfbox, ekki verður tekið á móti afskráningum í síma innan tveggja klukkustunda. Gildir það sama um nafnabreytingar. Afskráningar eru óhemju tíðar. Er þeim tilmælum hér með komið á framfæri við félagsmenn að þeir skrái sig ekki í rástíma nema þeir hafi raunverulega ákveðið að spila, en ekki á forsendu um að þeir vilji eiga möguleika á að spila og sjá svo til er að kemur. Komi til þess að félagsmaður mæti ekki í bókaðan rástíma, án þess að hafa afskráð sig með tilskildum fyrirvara, lokast sjálfkrafa fyrir skráningu viðkomandi félagsmanns í eina viku.
  6. Eftirlit og rástímareglur: Félagsmenn þurfa að staðfesta sig í rástíma í gegnum Golfbox app þegar mætt er til leiks. Eftirlitsmenn og starfsfólk í golfverslun geta aðstoðað ef þörf er á. Notkun hugbúnaðar eins og svonefndra skrifta við skráningu rástíma er með öllu óheimil. Golfbox hefur gripið til aðgerða til að geta fylgst kerfisbundið með því að kerfið verði ekki misnotað. GR mun birta nýjar rástímareglur, sem félagsmenn verða hvattir til að kynna sér, en þar er m.a. skerpt á refsingum fyrir brot gegn reglunum.
  7. Fjöldi félagsmanna og biðlistar: Fjöldi félagsmanna GR á síðastliðnu ári var um 3.400. Er þá átt við félagsmenn með óheftan aðgang að völlum klúbbsins. Í samræmi við lög GR hefur stjórn sett nýjar reglur um biðlista. Á grundvelli þeirra hefur stjórn ákveðið að á þessu ári verði ekki teknir inn nýir félagsmenn af biðlista umfram það sem þarf til að fylla í skörð þeirra sem hætta. Makar klúbbmeðlima og því næst kylfingum í aldurshópnum 19-26 ára verður boðin félagsaðild á þessum grundvelli. Öðrum verður ekki boðin félagsaðild að svo stöddu að minnsta kosti. Mögulega leiðir þetta til óverulegrar fækkunar félagsmanna. Ákvörðun um að veita aldurshópnum 19-26 ára forgang er tekin á þeirri forsendu að aldursdreifing í klúbbnum er orðin ójöfn og æskilegt að fá félagsmenn í þessum yngri aldurshópi til að jafna dreifinguna, með tilliti til framtíðarhagsmuna klúbbsins.
  8. Thorsvöllur og æfingaaðstaða: Lögð verður áhersla á að bæta gæði og umhirðu Thorsvallar. Völlurinn hefur tekið miklum framförum á síðustu árum og er orðinn góð viðbót við hina vellina. Stjórn minnir félagsmenn á þennan völl og hann á eftir að koma mörgum á óvart. Spil á Thorsvelli og bætt æfingaaðstaða eru viðbótarþættir sem hafa áhrif á rástímaþörfina.

Stjórn vill í lengstu lög forðast enn frekari og þá meira íþyngjandi aðgerðir. Er þá m.a. horft til þess að covid-faraldurinn hefur líklega haft í för með sér spil á völlum klúbbsins umfram það sem gengur og gerist í eðlilegu árferði. Markmið með framangreindum aðgerðum er að hámarka nýtingu á völlum klúbbsins og að aðgengi félagsmanna sé jafnt. Allir sitji við sama borð.

Starfsmenn og stjórn munu fylgjast vel með rástímaskráningum og hvort nóg hafi verið að gert.  Horfst verður í augu við staðreyndir. Ef aðgerðirnar duga ekki, þá kemur til greina að setja eins konar kvóta á skráningar þannig að fjöldi rástíma sem félagsmaður geti verið með bókaða á skráningartímabili sé takmarkaður. Einnig kæmi til greina að fækka félagsmönnum, kvótasetning í einhverju formi, eða gjaldtaka fyrir hvern spilaðan hring. Svona aðgerðir krefjast vandaðs undirbúnings og reynist vera þörf fyrir þær, þá verður leitast við að hafa félagsmenn með í ráðum um val milli aðgerða.

Kær kveðja,
Stjórn GR