Fyrsti vinavöllur GR 2022 – samningur undirritaður við Svarfhólsvöll hjá Golfklúbbi Selfoss

Það er komið að því að kynna vinavelli GR fyrir komandi tímabil en samningur hefur nú verið undirritaður við Svarfhólsvöll hjá Golfklúbbi Selfoss. Félagsmenn geta áfram nýtt sér vinavallasamning á Selfossi sjöunda árið í röð en völlurinn hefur verið vel sóttur af félagsmönnum klúbbsins á liðnum árum.

Svarfhólsvöllur er glæsilegur 9 holu golfvöllur á besta stað á Selfossi og hafa miklar framkvæmdir staðið þar yfir á undanförnum árum. Þrjár nýjar holur munu opna í vor á sama tíma og tvær eldri loka en stefnt er að því að opna fimm nýjar holur árið 2024 og að völlurinn verði orðinn fullvaxinn 18 holu golfvöllur árið 2026. Nýtt æfingasvæði og glæsilegt æfingaskýli mun einnig opna í vor og verður á sama tíma opnað frábært stuttaspil svæði þar sem hægt verður að slá í stóra flöt, 20-100 metra högg. Á stuttaspil svæðinu verður einnig vipp/púttflöt með glompum.

Eins og sjá má þá hefur Golfklúbbur Selfoss upp á allt að bjóða sem kylfingar þarfnast fyrir og eftir leik – glæsilegt klúbbhús, veitingaaðstöðu auk æfingasvæða

Sömu reglur gilda á Svarfhólsvelli eins og áður, félagsmenn GR greiða kr. 3.000 í vallargjald í hvert sinn sem leikið er á vellinum og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skulu félagar staðfesta félagsaðild sína og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.

Allar upplýsingar um vinavelli GR 2022 munu birtast hér á vefnum undir Golfvellir – Vinavellir

Við fögnum áframhaldandi samstarfi við Svarfhólsvöll og hlökkum til að kynna fyrir ykkur fleiri vinavelli á komandi vikum.

Góða helgi!
Golfklúbbur Reykjavíkur