Holukeppni GR: Mercedes-Benz bikarinn - Margrét Richter sigraði í úrslitaleiknum

Holukeppni GR: Mercedes-Benz bikarinn - Margrét Richter sigraði í úrslitaleiknum

Úrslitaleikur Mercedes-Benz bikarsins fór fram í gær, fimmtudaginn 27. september. Leikið var í ágætis haustveðri á Korpúlfsstaðavelli. Til úrslita léku þau Margrét Richter og Jón Kristján Ólason. Þetta var sjötta umferð keppninnar þannig að hvort um sig hafði slegið fimm keppinauta úr leik þegar kom að úrslitaleik. Greinilegt var að þessir keppendur komu fullir sjálfstraust til leiks og léku þau bæði gott golf, keppnin var jöfn og mjög spennandi og skiptust keppendur á um forystuna. Leik lauk á 17. holu en þá hafði Margrét unnið tveimur holum meira en Jón og aðeins ein hola eftir.

Lokahóf og verðlaunaafhending fór fram að loknum úrslitaleiknum og hlaut sigurvegarinn frítt árgjald að klúbbnum fyrir árið 2019 ásamt afnotum af Mercedes-Benz bifreið í eina viku. Fyrir annað sætið voru einnig veitt afnot af Mercedes-Benz bifreið í viku og auk þess gjafabréf í flug til Evrópu með Icelandair. Að lokum voru dregnir út vinningar til gesta í lokahófinu, en vinningarnir voru veittir í boði Öskju bílaumboðs, sem er styrktaraðili keppninnar.

Mercedes-Benz bikarinn hófst með forkeppni í byrjun sumars og voru það 64 keppendur sem hófu holukeppnina um miðjan júnímánuð. Holukeppnin var leikin með útsláttarfyrirkomulagi. Leikið var með fullri forgjöf, þar sem forgjafarmismunur dreifðist á erfiðustu holurnar samkvæmt forgjafarröð vallar. Holukeppnin hefur reynst skemmtileg viðbót við mótahald klúbbsins og er greinilega komin til þess að vera.

Við óskum Margréti til hamingju með sigurinn og þökkum keppendum öllum fyrir þátttökuna í sumar.

Að lokum færum við sérstakar þakkir til Bílaumboðsins Öskju fyrir að vera styrktaraðili keppninnar og fyrir ánægjulegt samstarf í sumar.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit