Holukeppni GR: Mercedes-Benz bikarinn snýr aftur

Holukeppni GR: Mercedes-Benz bikarinn snýr aftur

Holukeppni GR, sem haldin var í fyrsta sinn á síðasta sumri, sló rækilega í gegn. Keppnin var styrkt af Bílaumboðinu Öskju og hlaut nafnið Mercedes-Benz bikarinn. Áframhaldandi samningur hefur verið gerður við Öskju og mun því Mercedes-Benz bikarinn hefja göngu sína á ný næstkomandi laugardag, 2. júní, með forkeppni.

Leikin verður forkeppni, sem er venjuleg punktakeppni og munu 128 punktahæstu keppendurnir komast áfram í holukeppnina sem leikin verður með útsláttarfyrirkomulagi. Veglegir vinningar verða í boði.

Forkeppnin hefst næsta laugardag, 2. júní og mun standa til sunnudagsins 10. júní. Þeir sem ætla að taka þátt í forkeppninni bóka rástíma á einhverjum þeim degi sem forkeppnin er opin og má það vera hvort sem er á Grafarholts- eða Korpúlfsstaðavelli. Áður en leikur hefst þurfa keppendur að skrá sig til leiks í keppninni í afgreiðslu, gefa upp símanúmer og netfang. Keppendum í forkeppni er heimilt að leika eins marga hringi og þeir kjósa þá daga sem forkeppni stendur yfir. Greiða þarf kr. 1.200 fyrir hvern leikinn hring, ekki er annar kostnaður við þátttöku.

Í forkeppninni leika karlar af gulum teigum og konur af rauðum teigum. Hæst er gefin leikforgjöf 28 bæði hjá körlum og konum.

Að lokinni forkeppni verður tilkynnt hverjir komast áfram í holukeppnina og dregið verður um hverjir mætast. Holukeppnin hefst svo strax að lokinni forkeppni og þeir sem öðlast þátttökurétt þar hafa að jafnaði um tvær vikur til þess að finna sér leiktíma og leikdag í samráði við keppinaut sinn. Keppnin mun því standa yfir í allt sumar.

Mótstjóri holukeppninnar er Atli Þór Þorvaldsson og er hægt að hafa samband við Atla í gegnum netfangið holukeppni@grgolf.is eða í síma 894-2811.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit