J. Lindeberg bikarinn: golfhópurinn Nalúk liðameistari GR 2021

J. Lindeberg bikarinn: golfhópurinn Nalúk liðameistari GR 2021

Keppni í  J. Lindeberg bikarnum sem staðið hefur í allt sumar lauk í síðustu viku. Það voru golfhóparnir Ásar og Nalúk sem léku til úrslita og lauk leik með sigri Nalúk. Þetta er annað árið í röð sem Nalúk vinnur keppnina og fyrsta liðið sem ver titilinn.

Fyrsta keppnin fór fram árið 2016 og þá vann golfhópurinn Goldbond keppnina. Árið eftir sigraði golfhópurinn Faxar og 2018 var það Elítan sem fór með sigur af hólmi. Árið 2019 vann Naloh og 2020 var komið að Nalúk sem síðan varði titilinn frá fyrra ári.

Í ár kepptu 23 lið í 6 riðlum. Liðin í hverjum riðli léku öll gegn hvort öðru og efsta liðið í hverjum riðli komst áfram upp úr riðlakeppninni. Að auki komust 2 lið áfram sem enduðu í öðru sæti í sínum riðlum. Það voru því 8 lið sem komust í útsláttarkeppnina.

Riðlakeppnin fór fram í júní mánuði og voru riðlarnir með fasta leikdaga. Liðin þurftu því ekki að finna leikdaga sjálf og mæltist þetta vel fyrir. Stundum voru fjögur lið að leika sama kvöldið og myndaðist góð stemning í klúbbhúsinu eftir leikina.

Gert var hlé á mótinu í júlí en útsláttarkeppnin var leikin í ágúst. Í átta liða úrslitum mættust eftirtaldir hópar:

Nafnlausa golffélagið     Brassar 
Árbæjargolf Ásar
Nalúk FORE A
Hola í höggi  Minkurinn

Það voru Brassar , Ásar, Nalúk og Hola í höggi sem komust áfram í undanúrslit. Þar höfðu Ásar betur gegn Brössum og Nalúk sigraði Holu í höggi.

Nalúk og Ásar mættust því í úrslitaleik í þessari stórskemmtilegu keppni. Um hörkuleik var að ræða og keppendur vel stemmdir. Margir keppendur sýndu sparihliðarnar og léku sitt besta golf.

Í úrslitaleiknum var leikið 18 holu golf en fram að því voru þetta 9 holu viðureignir. Eftir hörku viðureign og mikla baráttu enduðu leikar þannig að Nalúk vann sannfærandi sigur og eru verðskuldaðir liðameistarar GR árið 2021.

Við þökkum styrktaraðila liðakeppni J. Lindeberg Ísland kærlega fyrir stuðninginn og þökkum öllum liðum fyrir góða keppni í sumar.

Til hamingju með sigurinn Nalúk! 

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit