J. Lindeberg bikarinn – liðakeppni GR: nalúK sigraði í úrslitaleiknum

J. Lindeberg bikarinn – liðakeppni GR: nalúK sigraði í úrslitaleiknum

Miðvikudaginn 2. september var úrslitaleikur leikinn í J. Lindeberg bikarnum – liðakeppni GR. Liðin sem léku til úrslita voru nalúK og Forynjur.

Þetta er sjötti leikur liðanna í mótinu en hvorugt liðið hafði tapað leik í mótinu fyrir úrslitaleikinn.

Tuttugu og fjögur lið hófu keppni og var liðunum raðað í sex riðla með fjórum liðum í hverjum riðli. Í riðlakeppninni léku liðin hvert gegn öðru þannig að öll liðin léku 3 leiki.

Sigurlið riðlanna sex auk tveggja liða í öðru sæti riðla komust áfram úr riðlakeppninni í 8 liða útsláttarkeppni. Í 8 liða úrslitum var það nalúK liðið sem sigraði Team Lady og Forynjur sigruðu Naloh. Í undanúrslitum voru það lið Væringja og Fore B sem duttu út þar sem nalúK og Forynjur unnu örugga sigra.

Það var nalúK sem hafði svo betur í úrslitaleik keppninnar. Unnu góðan sigur í flottum úrslitaleik, þar sem gott golf var leikið. Margir keppenda voru að leika sitt besta golf.

Forynjur urðu í 2. sæti í J. Lindeberg bikarnum

Þetta er fimmta árið í röð sem þessi liðakeppni fer fram og var ánægjulegt hve mörg kvennalið tóku þátt í keppninni í ár og að tvö þeirra léku svo til úrslita. Fyrsta árið var ekkert kvennalið sem skráði sig til leiks en sumarið 2017 mætt tvö til leiks, Kötlur og Hola í höggi. Bæði liðin hafa verið með síðan. Í ár voru 5 kvennalið og eitt blandað karla- og kvennalið.

Liðum hefur fjölgað frá ári til árs enda um mjög skemmtilega keppni að ræða, með sveitakeppnisstemmingu þar sem kylfingar fá tækifæri til að taka þátt í golfkeppni sem lið.

Að loknum úrslitaleiknum fór fram lokahóf þar sem bæði lið fengu gjafabréf fyrir golffatnaði frá J. Lindeberg og nalúK voru krýndar sem liðameistarar GR 2020.

Við þökkum keppendum öllum fyrir þátttökuna í sumar og nalúK innilega til hamingju með sigurinn. J. Lindeberg færum við einnig kærar þakkir fyrir að styrkja keppnina í ár.

Kveðja,
Mótanefnd

Til baka í yfirlit