PERLA SÓL VALIN Í ÚRVALSLIÐ EVRÓPU

Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi 2022, var valin í úrvalslið meginlands Evrópu sem keppir gegn úrvalsliði Bretlands og Írlands í Junior Vagliano liðakeppninni 2022. Mótið er árlegur viðburður þar sem að úrvalslið kvenna 16 ára og yngri keppir sín á milli – og eru aðeins kylfingar í fremstu röð á heimsvísu valdir í þetta mót.

Valnefnd á vegum EGA setti saman liðið – sem er þannig skipað: Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Johanna Axelsen (Danmörk), Anna Cañadó (Spánn), Andrea Revuelta (Spánn), Carla De Troia (Frakkland). Sigurvegarinn úr R&A áhugamannamótinu í stúlknaflokki fær einnig sæti í liðinu en mótið hófst í dag. Þeir keppendur sem nú þegar eru í liðinu hafa aldrei áður keppt á þessu móti.

Mótið fer fram dagana 26.-27. ágúst á Blairgowrie golfvellinum í Skotlandi

Við óskum Perlu góðs gengis á mótinu og hlökkum til að fylgjast með henni!

Golfklúbbur Reykjavíkur