Ragnhildur Kristinsdóttir í atvinnumennsku

Ragnhildur Kristinsdóttir afrekskylfingur úr GR hefur tilkynnt um atvinnumennsku í golfi og lék sitt fyrsta mót sem atvinnumaður í keppnis- og æfingaferð sem hópur afrekskylfinga úr klúbbnum dvelur nú í á Spáni. Mótið var kynjablandað en Ragnhildur lauk leik í 11. sæti á samtals 222 eftir þrjá hringi (74-74-74), efst kvenkylfinga. Í 10. sæti varð Haraldur Franklín Magnús á samtals 218.

Úrslit úr mótinu má sjá hér

Ragnhildur kemur til með að spila meðst á LET Access mótaröðinni í ár, fyrsta mótið er í mars og ef allt gengur eftir þá verður Ragnhildur meðal keppenda þar. Ragnhildur stefnir einnig á að spila hér heima í sumar og  ætlar meðal annars að taka þátt á Íslandsmótinu í golfi sem leikið verður á Urriðavelli.

Kylfingur.is náði tali af Ragnhildi eftir að hún tilkynnti um atvinnumennskuna og hafði hún þetta að segja:

„Ég verð mestmegins að spila á LET Acess mótaröðinni í ár. Fyrsta mótið er núna í byrjun mars og ég kemst inn í það ef allt gengur eftir“ sagði Ragnhildur í samtali við Kylfing, þar sem hún er á Spáni í æfingaferð með afrekshópi GR. 

„Ég ætla að gera út frá Íslandi til að byrja með. Hef aðgang að flottri æfingaaðstöðu hjá GR í Básum og svo hjá Golfstöðinni í Glæsibæ. Núna leita ég eftir góðum styrktaraðilum sem vilja hjálpa mér á minni vegferð. Ég er heppin að eiga góða að og er búin að leggja til hliðar í nokkur ár vitandi að ég væri að fara taka þetta skref. “

Við óskum Ragnhildi innilega til hamingju með þetta skref og hlökkum til að fylgjast með vegferð hennar á næstu mánuðum og árum.

Golfklúbbur Reykjavíkur