Lög GR

LÖG GOLFKLÚBBS REYKJAVÍKUR

I. Heiti, heimili og hlutverk
1. grein
Félagið heitir Golfklúbbur Reykjavíkur (GR). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
GR er aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og Golfsambandi Íslands (GSÍ).

2. grein
Markmið GR á hverjum tíma er að efla áhuga manna á golfíþróttinni og að vinna að framgangi hennar.
Félagið rekur golfvelli og skapar félögum aðstöðu til golfiðkunar.

II. Félagsmenn
3. grein
Félagar geta allir orðið sem hafa áhuga á að styðja tilgang félagsins og óska aðildar með skriflegri umsókn, enda samþykki stjórnin umsókn á fundi sínum.

Stjórn skal ákveða hámarksfjölda félagsmanna hverju sinni miðað við þá aðstöðu til golfleiks sem félagið getur boðið hverju sinni.Æski fleiri félagsaðildar en unnt er að verða við skal setja umsækjendur á biðskrá. Stjórn skal setja og birta reglur um biðskrána. Aukaaðild að klúbbnum geta fengið ungmenni 17 ára og yngri. Aukaaðild fylgir takmarkaður réttur til leiks á golfvöllum félagsins samkvæmt reglum sem stjórnin setur. Stjórn skal ákveða hámarksfjölda aukafélaga miðað við þá aðstöðu sem félagið getur boðið hverju sinni.

4. grein
Samþykktur umsækjandi telst félagsmaður og fer á félagaskrá er hann hefur greitt ákvörðuð gjöld. Um félagsaðild og þátttöku félagsmanna á golfmótum skal farið að lögum og reglum Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) og GSÍ.


5. grein

Árgjöld og inntökugjöld skulu ákveðin af stjórn félagsins til eins árs í senn. Skal ákvörðunin tekin eins fljótt og verða má að loknum aðalfundi félagsins í samræmi við þá fjárhagsáætlun er samþykkt var á fundinum, sbr. 7. gr. og 6. tl. 2. mgr. 18. gr.

6. grein
Árgjald skal greitt eða frá greiðslu þess gengið fyrir 1. febrúar ár hvert. Hafi árgjald ekki verið greitt fyrir 1. mars er félagsstjórn heimilt að fella viðkomandi af félagaskrá og taka inn félaga af biðskrá í hans stað.
Stjórn félagsins er heimilt að bjóða félagsmönnum upp á greiðsludreifingu árgjalda með kreditkortum eða öðrum viðurkenndum greiðsluaðferðum.  Skilyrði er að félagið beri ekki kostnað af slíkum samningum.
Eftir umsókn félagsmanns, og ef um er að ræða sérstakar aðstæður hans, er stjórninni heimilt að veita undanþágu frá greiðslu gjalda.

7. grein
Við golfleik skal farið eftir St. Andrews golfreglum eins og þær eru á hverjum tíma og þeim reglum sem GSÍ setur. Svo fremi sem þessar golfreglur banna ekki, getur stjórnin sett sérreglur (staðarreglur) um golfleikinn og um umgengni og annað sem henni þykir þurfa hverju sinni.

8. grein
Félagsmenn eru skyldugir að fara eftir þeim golfreglum sem gilda á hverjum tíma enda sér stjórnin um að þær séu nægilega kynntar og aðgengilegar félagsmönnum.
Stjórnin skal setja reglur um skráningu rástíma, leikhraða, umgengni og framkomu á golfvöllunum og í klúbbhúsum. Stjórnin getur bundið rétt til þess að leika aðalvelli félagsins við forgjafarlágmark. Brjóti félagsmaður alvarlega eða ítrekað gegn reglum félagsins getur stjórnin beitt viðkomandi viðurlögum sem geta verið áminning, tímabundinn missir réttinda til þess að mega skrá rástíma, tímabundinn missir réttinda til þess að leika á golfvöllum félagsins eð brottvísun úr félaginu. Stjórnin getur skipað aganefnd til þess að fara með agavald sitt. Brottvísun úr félaginu skal þó ætíð háð samþykki stjórnarinnar.

III. Stjórn og framkvæmdastjórn
9. grein
Kjörgengir til stjórnarstarfa eru lögráða félagsmenn.

10. grein
Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Sex eru kosnir til tveggja ára í senn, þrír í hvert sinn, en formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Í stjórn félagsins skulu sitja að lágmarki þriðjungur einstaklinga af hvoru kyni. Á aðalfundi skal jafnframt kjósa þrjá varamenn í stjórn til eins árs í senn. Í forföllum aðalmanna skulu varamenn kallaðir í þeirri röð sem þeir voru tilnefndir við kjör eða kosnir, að teknu tilliti til þess að í stjórn skuli sitja að lágmarki þriðjungur einstaklinga af hvoru kyni.

Hljóti þrír frambjóðendur af sama kyni flest atkvæði í kosningu til stjórnar og/eða varastjórnar skal næsti frambjóðandi af öðru kyni taka sæti þess er hlaut þriðju flest atkvæði.

Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félags og stjórnar þegar við á, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila.

Varamenn mega sitja alla stjórnarfundi í félaginu og hafa þar málsfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hafa þeir aðeins í forföllum aðalmanns. Stjórnarmenn og varamenn má endurkjósa.

Á aðalfundi skal kjósa þrjá félaga í kjörnefnd til að annast framkvæmd kjörs til stjórnar félagsins á næsta aðalfundi. Að liðnum framboðsfresti skal kjörnefnd tilkynna á vefsíðu félagsins um framkomin framboð. Kjörnefnd skal annast stjórnarkjör á grundvelli meginreglna um jafnræði og gagnsæi við kosningar. Líði framboðsfrestur án þess að nægilega margir frambjóðendur bjóði sig fram til stjórnar og/eða varastjórnar og að gættum reglum um kynjahlutföll, skal kjörnefnd á aðalfundi tilnefna stjórnar- og/eða varamenn eins og upp á vantar þannig að tilskildum fjölda stjórnar- og varastjórnarmanna sé náð.

Framboð til formanns-, stjórnar- og varastjórnarkjörs á aðalfundi skal berast í síðasta lagi viku fyrir auglýstan aðalfund, sent á netfang er birt skal á heimasíðu félagsins (sjá netfang undir „Stjórn og nefndir GR – kjornefnd@grgolf.is„).  Skal frambjóðandi gera grein fyrir því hvort framboðið er til embættis formanns, stjórnar eða varastjórnar.

11. grein
Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér störfum þannig að einn skal vera varaformaður og staðgengill formanns, einn ritari, einn gjaldkeri og þrír meðstjórnendur. Þá skipar stjórnin í nefndir sem starfa á vegum félagsins og tilnefnir fulltrúa félagsins í nefndir og ráð sem það á aðild að.

12. grein
Á aðalfundi gerir formaður, eftir því sem unnt er, grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi félagsins á væntanlegu starfsári. Einnig skal kynna fjárhagsáætlun og fyrirhugaðar kostnaðarsamar nýframkvæmdir.

13. grein
Stjórnin ræður félaginu framkvæmdastjóra og ákveður ráðningarkjör hans. Framkvæmdastjóri stýrir daglegum rekstri félagsins í samræmi við stefnumörkun stjórnar. Stjórnin skal leitast við að tryggja félagsmönnum nægilegt framboð golfkennslu með ráðningu golfkennara.
Heimilt er stjórninni að greiða mönnum beinan kostnað sem leiðir af störfum þeirra fyrir félagið.

14. grein
Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsins og ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þessi setja og ber ábyrgð gerða sinna fyrir aðalfundi.

15. grein
Fyrir einstök og verðskulduð störf í þágu félagsins getur stjórnin gert að tillögu sinni að aðalfundur ákveði að tiltekinn félagsmaður, einn eða fleiri, verði gerður að heiðursfélaga. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald en njóta allra félagsréttinda. Tilnefningunni skal fylgja sérstakt skjal til staðfestingar. Á sérstökum tímamótum getur stjórnin veitt félagsmönnum og/eða velunnurum félagsins heiðursmerki og/eða afreksmerki félagsins í samræmi við reglur sem um slíkt gilda.

IV. Aðalfundur
16. grein
Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins. Aðalfund skal halda í Reykjavík að reikningsári loknu og fyrir 7. desember ár hvert. Aðalfund skal boða með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta með auglýsingu á vefsíðu félagsins, tölvupósti til félagsmanna og á miðlum félagsins. Dagskrá fundarins skal fylgja fundarboði.

17.grein
Aðalfundur er löglegur og ályktunarhæfur um málefni félagsins sé löglega til hans boðað. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi nema annað sé ákveðið í lögum þessum. Atkvæðisrétt hafa allir lögráða félagsmenn.

18. grein
Í upphafi aðalfundar skal kjósa sérstakan fundarstjóra og ritara eftir tilnefningu.
Dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Skýrsla formanns.
  2. Kynning á endurskoðuðum ársreikningi félagsins.
  3. Umræður um skýrslu formanns og ársreikning sem síðan skal borinn upp til samþykktar.
  4. Umræður og atkvæðagreiðsla framkominna tillagna skv. 19. gr. ef einhverjar eru.
  5. Afgreiðsla tillagna til lagabreytinga.
  6. Kynning á fjárhagsáætlun komandi starfsárs, umræður og atkvæðagreiðsla.
  7. Kosning stjórnar og varamanna í stjórn.
  8. Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
  9. Önnur málefni ef einhver eru.

Fundarstjóra og fundarriturum er skylt að ganga frá fundargerðum.

19. grein
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi þess og skal tillögum til lagabreytinga eða öðrum tillögum sem óskað er eftir að verði teknar til afgreiðslu á aðalfundi skulu hafa borist stjórn fyrir 1. nóvember og skulu kynntar í aðalfundarboði. Nái tillaga til lagabreytingar samþykki 2/3 (tveggja þriðju hluta) greiddra atkvæða fær hún gildi.

20. grein
Stjórnin getur boðað til félagsfundar ef henni þykir henta. Stjórninni er skylt að halda félagsfund ef 1/10 félagsmanna óskar þess. Slíkan fund skal halda innan þriggja vikna frá því að skrifleg beiðni og rökstuðningur hefur borist stjórninni. Fundinn skal boða með sama hætti og reglulegan aðalfund.

V. Ýmis ákvæði
21. grein
Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún tekin fyrir á sérstökum fundi sem stjórnin boðar til með sama hætti og aðalfund. Fundurinn er ályktunarhæfur ef minnst helmingur félagsmanna sæki fundinn og tillagan fær gildi ef 2/3 fundarmanna samþykkja hana. Mæti ekki nægilega margir skal boða til fundar á ný og halda hann innan þriggja vikna. Sá fundur er ályktunarhæfur án tillits til fundarsóknar og fær tillagan gildi ef 2/3 fundarmanna samþykkja hana.

22. grein
Reikningsár félagsins er frá 1. nóvember til 31. október.

23. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Þannig samþykkt á aðalfundi 29. nóvember 2001
Samþykkt breyting á 16. grein (fundarboðun) á aðalfundi 30.nóvember 2009

Þannig samþykkt á aðalfundi 3. desember 2015
Samþykkt breyting á 6. og 10. grein á aðalfundi 3. desember 2015

Þannig samþykkt á aðalfundi 4. desember 2018
Samþykkt breyting á 5., 10., 16. og 18. grein á aðalfundi 4. desember 2018

Þannig samþykkt á aðalfundi 6. desember 2021

Samþykkt breyting á 3., 10., 16. og 19. gr. á aðalfundi 6 desember 2021